Í gær hækkaði verð á olíu verulega þegar vonir um vopnahlé á milli Ísraela og Hezbollah urðu að engu. Í dag hefur verð á olíu haldið áfram að hækka og gera sérfræðingar allt eins ráð fyrir að verðið hækki í 80 dali á tunnu á næstu misserum, segir greiningardeild Glitnis.

"Talsmenn OPEC hafa á hinn bóginn áhyggjur af svo háu olíuverði og telja það skaða þeirra hagsmuni til lengri tíma því með hátt olíuverð hefur neikvæð áhrif á hagvöxt. Haft var eftir forseta samtakanna, Edmund Daukoro, að umframframleiðslugeta samtakanna væri um 2 milljónir tunna á dag og væri því möguleiki á að auka framleiðsluna enn frekar," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir vandamálið á olíumörkuðum er á hinn bóginn ekki framboð á olíu, heldur er stríðið í Líbanon og kjarnorkuþrætan á milli Írans og Bandaríkjanna að hafa mikil áhrif á markaði.
?Næsti framleiðsluákvörðunarfundur OPEC verður haldin í september og verður þá athyglisvert að sjá hvort hagsmunasamtökin auki við framleiðslu til að slá á frekari hækkanir," segir greiningardeildin.