Í þessari viku hefur olíuverð hækkað um rúmlega 9% á markaði í London. Ein aðalástæða hækkunarinnar er nýr fellibylur í Mexíkóflóa, Ríta. Ríta stefnir nú á Texas en þar eru 26 olíuhreinsunarstöðvar sem eru með 26% af framleiðslugetu Bandaríkjanna. Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að margir eru áhyggjufullir vegna tjóns sem fellibylurinn gæti valdið og því hefur olíuverð farið hækkandi eftir því sem Ríta hefur orðið öflugri. Ríta er nú orðinn jafn öflugur fellibylur og Katrín var. Aðrar ástæður fyrir hækkun olíuverðs núna eru óeirðir í Nígeríu sem er áttundi stærsti útflytjandi olíu. Á móti voru birtar tölur um að bensínbirgðir í Bandaríkjunum hafi aukist undanfarið vegna minni eftirspurnar.

Í kjölfar mikilla hækkana á olíu vegna fellibylsins Katrínu fyrir nokkrum vikum hafði olía lækkað fyrri hluta septembermánaðar og þrátt fyrir hækkun undanfarna daga er olíuverð enn undir hámarkinu sem náðist samhliða Katrínu. Ef mikið tjón verður af völdum Rítu má allt eins búast við að olíuverð hækki enn frekar og nái nýju hámarki.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka