Olíuverð hækkaði skyndilega á mörkuðum í New York eftir að olíuleiðsla var eyðilögð í Basra, þungamiðju olíuframleiðslu í Írak í morgun. Á fréttavef BBC kemur fram að olíuflutningur frá svæðinu muni minnka um þriðjung vegna þessa.

Olíuverð hækkaði um fjóra Bandaríkjadali i gær og fór í rúma 106 dali. Við eyðilegginguna í Basra rauk verðið upp um einn dal í morgun og er nú komið yfir 107 dali.

Írak er hluti af OPEC og talið er að skemmdirnar í morgun verði til þess að framboð af olíu minnki verulega þangað til búið er að koma leiðslunum í lag á ný en samkvæmt Reuters fréttastofunni gæti það tekið um tvo mánuði.