Olíuverð hækkaði að nýju í morgun og er tunnan nú komin hátt í 107 Bandaríkjadali. Á mörkuðum í Bandaríkjunum kostar tunnan nú 106,82 dali en í Lundúnum kostar Brent tunnan 105,22 dali.

OPEC samtökin lýstu því enn yfir um helgina að samtökin sjá ekki ástæðu til að auka framleiðslu sína til að lækka verð.

Fréttavefur BBC greinir frá því að í yfirlýsingu fjölmiðladeildar OPEC komi fram að mikill þrýstingur hafi verið á samtökin að auka framleiðslu sína.

„Framboð á olíu er nægjanlegt á mörkuðum og hátt olíuverð kemur ekki til vegna skorts á framboði heldur veikingar Bandaríkjadals, lausafjárkreppu og pólitískri spennu í heiminum,“ sagði Abdullah al-Badri, forseti OPEC.

Nokkuð áberandi er að fjárfestar kaupi olíu undanfarnar vikur vegna veikingar Bandaríkjadals en fjárfestar nota þá aðferð gjarnan til að tryggja fjármagn sitt í dollurum.