Verð á hráolíu til vinnslu í framvirkum samningum til afgreiðslu í janúar nú nálægt 77 dollurum á tunnu á mörkuðum bæði í London og New York. Er verðið nú meira en tvöfalt hærra en í ársbyrjun 2009, en hjá Brent í London hefur verðið farið á þessu ári í 79,69 dollara þann 21. október sl. Hefur verð á dísilolíu hlutfallslega fylgt þessari þróun. Hik kom þó kom þó á hækkanir í morgun og örlaði á lækkun olíuverðs um tíma þegar opinberar tölur í Bandaríkjunum sýndu að efnahagsbatinn yrði hægari en búist var við.

Eftir að hráolíuverðið náði methæðum í júlí 2008 eða 147,30 dollurum á tunnu, hrapaði það mjög ört í fyrrahaust og fór lægst í 30,28 dollara (spot-verð) á tunnu hjá WTI í New York þann 23. desember 2008. Í janúar 2009 var verðið komið upp í 40 dollara en lækkaði síðan niður í 33 dollara á tunnu um miðjan febrúar. Síðan verið sveiflukennt en í heild hækkað verulega frá ársbyrjun.

Sérfræðingar á markaði hafa margir talað um að raunhæft verð á olíu sé í kringum 80 dollarar á tunnu. Forstjóri hollenska olíufélagsins Shell greindi frá því í gær að skuldahækkunarhrinan væri á enda. Félagið yrði því ekki í þörf fyrir frekari lántökur ef olíuverðið héldist nálægt 80 dollurum á tunnu. Shell hefur gripið til margvíslegra sparnaðarráðstafana á árinu, m.a. sagt upp 5.000 starfsmönnum og náð fram lækkunum á kostnaði borverktaka. Talið er að niðurskurðurinn dragi úr kostnaði hjá félaginu um 3-4 milljarða dollara á næsta ári. Það eigi að duga til að fjárhagsstaðan nái jafnvægi.