Olíuverð fór í methæðir í framvirkum samningum á markaði í New York í dag. Fór verðið upp undir 64 dollara á tunnu í kjölfar hótana sem bárust bandaríska sendiráðinu í Sádí Arabíu og juku áhyggjur manna um að útflutningur frá þessu stærsta olíuríki heims kynni að vera í hættu.

Sendiráði Bandaríkjanna í Riyadh og ræðismannsskrifstofunum í Jeddah og Dhahran var lokað í dag og verður einnig lokað á morgun vegna hótana um skemmdarverk á opinberum byggingum. Þá hækkaði bensínverð einnig út af áhyggjum manna um lokun olíuhreinsunarstöðva.

Verð á olíu til afgreiðslu í september hækkaði um 1,44 dollara eða 2,3% í morgun og var komið í 63,75 dollara tunnan um hádegisbil á hrávörumarkaði í New York. Er það hæsta verð sem sést hefur í viðskiptum innan dagsins frá því framvirkir samningar í olíuviðskiptum voru teknir upp á markaði í New York árið 1983. Fyrra met var 62,50 dollarar og var sett þann 3. ágúst sl. Miðað við verðlag var olía þó hlutfallslega dýrari 1983 en hún er nú.

Raunverð á olíu hefur þó farið hærra en þetta á heimsvísu, því í kjölfar stríðs Ísraelsmanna og Araba árið 1979 steig verð mjög. Olía til hreinsunarstöðva í Bandaríkjunum var t.d. 35,24 dollarar á tunnu árið 1981 eða sem svarar til 75,44 dollara á tunnu á verðlagi dagsins í dag.

Á markaði í London var svipaða sögu að segja í dag. Hjá Brent hækkaði verðið um 2,4% og fór í 62,52 dollara tunnan á olíu til afgreiðslu í september. Var það þá farið að nálgast hæsta verð sem þar hefur sést sem er 62,70 dollarar á tunnu, en slík viðskipti hófust á þessum markaði árið 1988.