Olíuverð heldur áfram að lækka en tunnan af hráolíu kostar nú 39,5 Bandaríkjadali á mörkuðum í New York.

Reuters fréttastofan greinir frá því að eftir að nýjustu tölur um atvinnumarkaðinn í Bandríkjunum voru birtar hafi olíuverð tekið kipp niður á við en samkvæmt tölum frá atvinnumálaráðuneyti Bandaríkjanna misstu alls 524 þúsund manns vinnuna í desember eins og greint var frá hér .

Þá mældist 7,2% atvinnuleysi nóvember í Bandaríkjunum sem þýðir að atvinnuleysi hefur náð 16 ára hámarki.

Fljótlega eftir að tölurnar voru birtar lækkaði tunnan af hráolíu um 2,2 dali. Þá kostar tunnan af Brent olíu í Lundúnum nú 42,95 dali.

Rétt er að geta þess að tunnan af hráolíu hefur nú lækkað um rúma 100 dali frá því að olíuverð náði hámarki í júlí síðastliðnum. Þá kostaði tunnan rúma 147 dali. Lægst fór olíuverðið í 33,87 dali þann 19. desember síðastliðinn og hafði þá ekki verið jafn lágt frá því um miðjan febrúar 2004.