Olíuverð lækkaði í vikunni sem leið um 5,6% á fatinu af Brent norðursjávarolíu og hefur verð ekki verið eins lágt síðan í júní síðastliðnum, segir greiningardeild Glitnis en lokaverð var 71,57 dollarar á laugardaginn.

?Eftirspurn hefur minnkað þar sem sumarleyfi eru að taka enda og einnig virðast tölur um minni hagvöxt í Bandaríkjunum hafa töluverð áhrif til lækkunar. Minni áhyggjur af ástandinu í Mið-Austurlöndum í kjölfar vopnahlés milli Ísrael og Líbanon hafa einnig haft áhrif til lækkunar á olíuverði," segir greiningardeildin.

Það má reikna með áframhaldandi lækkun næstu mánuði samhliða minnkandi hagvexti. ?Samt sem áður muni olíuverð líklega hækka til lengri tíma litið og að líta verði á verðlækkunartímabil sem kauptækifæri," segir greiningardeildin.

Hún segir að tuttugu af þeim 35 sérfræðingum sem spá fyrir um þróun hráolíuverðs fyrir Bloomberg telja að verð muni halda áfram að lækka í þessari viku.

?Það sem helst styður skoðun þeirra eru horfur á að hægja muni á hagvexti í Bandaríkjunum og þar af leiðandi minnki eftirspurn þar eftir hráolíu. Einnig líta menn til Kína sem er þriðji stærsti kaupandi hráolíu í heiminum. Þar voru vextir hækkaðir í síðustu viku til að slá á þenslu og mun það að öllum líkindum minnka eftirspurn," segir greiningardeildin.