Olíuverð hefur haldið áfram að lækka það sem af er degi. Áhyggjur af að fellibylurinn Dolly muni skaða olíuframleiðslu í Bandaríkjunum hafa farið minnkandi auk þess sem styrking Bandaríkjadals veldur minni eftirspurn eftir hrávörum.

Olíutunnan hefur nú lækkað um 1,9% það sem af er degi og kostar tæplega 126 Bandaríkjadali þegar þetta er skrifað, um klukkan hálf ellefu. Olíuverð náði hámarki í 147 dölum á tunnu 11. júlí síðastliðinn og hefur því lækkað um rúma 20 dali á skömmum tíma.

Olíuverð hefur þó hækkað um tæplega 30% á þessu ári.

Þetta kemur fram í frétt BBC.