Verð hráolíu lækkaði í gær eftir að hafa náð fjögurra mánaða hámarki í yfir 51 dollurum á olíutunnuna á þriðjudaginn. Í New York hélst verðið yfir 51 dollurum sem væntalega má rekja til veikingar dollarans. Olíuverðslækkunin átti sér stað í kjölfar útgáfu á skýrslu sem greindi frá því að olíumálaráðherra Kuwait telji að hækkandi olíuverð geti leitt til aukinnar olíuframleiðslu OPEC ríkjanna.

Í Hálffimm fréttum KB banka er fjallað um þessa þróun en olíuverð fór yfir 50 dollara á þriðjudag í fyrsta skipti á árinu eftir að skyndilegt kuldakast í Evrópu og Bandaríkjunum jók áhyggjur yfir því að takmarkað framboð af olíu nægi ekki til að mæta aukinni eftirspurn. "Í rúma 2 áratugi hefur verð framtíðarsamninga í New York, með tunnu af hráolíu, farið yfir 50 dollara í aðeins 31 dag. Olíuverð er nú 50% hærra en fyrir ári sem rekja má til kröftugrar eftirspurnar, takmarkaðrar getu til aukinnar olíuframleiðslu og áhyggja yfir mögulegum framleiðslutruflunum, í Írak og Nigeríu vegna verkfalla," segir í Hálffimm fréttum.

Á seinasta ári var framleiðsla OPEC, sem framleiða um 40% af allri olíu í heiminum, meiri en hún hefur verið í 25 ár og eftirspurnarvöxtur var meiri en hann hefur verið í þrjá áratugi. IEA, sem er fulltrúi olíuneytendaríkja, hefur hækkað spár sínar um olíueftirspurn fyrir alla mánuði nema þrjá síðan í nóvember árið 2003. Eftirspurn eftir olíu í Kína, sem er næststærsta olíuinnflutningsland í heimi, jókst um 16% árið 2004 og er spáð 6,3% aukningu eftirspurnar á árinu 2005.

Ráðherrar OPEC héldu framleiðslukvótum sínum óbreyttum á seinasta fundi sem fram fór þann 31. janúar. Þeir sögðu jafnframt að þeir myndu fylgjast með þróun eftirspurnar og draga úr framleiðslu ef olíubirgðir í heiminum drægjust saman og verð lækkuðu. Næsti fundur OPEC fer fram í Íran þann 16. mars. Forstjóri OPEC hefur sagt að markmið þeirra sé að halda olíverði stöðugu og tryggja stöðuga birgðastöðu.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.