Verð á Brent Norðursjávarolíu fór í morgun undir 60 dali fatið en verð hefur ekki verið lægra frá því í febrúar á þessu ári, segir greiningardeild Landsbankans. ?Frá því í byrjun ágúst hefur olíuverð lækkað um tæp 25% eða úr rúmum 78 USD fatið," segir greiningardeildin.

Það er þrennt sem veldur lækkuninni. ?Nýjar hagtölur í Bandaríkjunum sýna minnkandi hagvöxt þar í landi. BP tilkynnti að félagið myndi hefja framleiðslu sína í Alaska mun fyrr en búist hafði verið við eftir mengunarvandamál. Loks hafa ummæli forseta Írans um að írönsk stjórnvöld væru tilbúin til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um kjarnaorkuáætlanir sínar dregið úr áhættuálagi á olíuverð," segir greiningardeildin.

Hún segir að verðlækkanir á olíu höfðu almennt góð áhrif á erlenda hlutabréfamarkaði. ?Flugfélög og önnur fyrirtæki sem eru háð verði á olíu hafa hækkað í kjölfar lækkananna. Hinsvegar lækkaði norska úrvalsvísitalan um 3,7% í dag, en stór hluti norskra fyrirtækja er háður olíuiðnaði. Statoil lækkaði um 4,7%, Norsk Hydro um 4,1% og DNO um 9,3%," segir greiningardeildin.

Menn eru ekki á eitt sammála um þróun olíuverðs næstu mánaða. ?Á norska netmiðlinum n24.no er haft eftir Petter Osmundsen, sem er sérfræðingur í olíumálum, að líklegt sé að verð muni halda áfram að lækka á næstu mánuðum. Á Bloomberg fréttaveitunni telur Mike Wittner, yfirmaður orkurannsókna Calyon fjárfestingabanka, hins vegar að fatið fari upp í 70 USD fyrir árslok vegna aukinnar árstíðarbundinnar eftirspurnar og aðlögunar á framleiðslu OPEC," segir greiningardeildin.