Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað umtalsvert eftir að hafa náð hámarki sínu í lok október. Lækkun olíuverðs hélt áfram á mörkuðum í New York í gærmorgun en framvirkt verð á olíu til afhendingar í janúar var 41,13 dollarar og hefur verð á olíu ekki verið lægra síðan undir lok júlí. Brent hráolíuverð lækkaði einnig og nam framvirkt verð þess 38,02 dollurum í morgun. Þrátt fyrir þessar lækkanir að undanförnu er hækkun olíuverðs á árinu enn töluverð, en olíuverð hefur hækkað um 26% frá því í ársbyrjun.

Í Vegvísi Landsbankans í gær kom fram að sérfræðingar telja að rekja megi lækkunina til væntinga um að olíubirgðir Bandaríkjamanna hafi aukist í síðustu viku en gott veðurfar þarlendis hefur dregið úr eftirspurn eftir olíu til hitunar. OPEC ríkin hafa einnig framleitt 1,2 milljón tunnur á dag umfram takmarkinu sem þau hafa sett sér. Því má að einhverju leyti rekja lækkun olíuverðs til umframframleiðslu.

Í gær hélt olíuverðið áfram að lækka eftir því sem líða tók á daginn vegna væntinga um að OPEC ríkin muni ekki breyta framleiðslukvóta á samráðsfundi næstkomandi föstudag. Á mörkuðum í New York lækkaði framvirkt olíuverð niður í 40,6 dollara í kjölfar þessa en verð á mörkuðum í London lækkaði einnig og fór framvirka olíuverðið niður í 37,3 dollara á brent olíufat eins og bent er á í Vegvísinum.