Olíuverð hefur heldur gefið eftir síðustu daga. Verð á tunnu af Brent hráolíu er nú nærri 5 dollurum lægra en þegar það náði hámarki um miðjan ágúst. Verðið er samt enn yfir 40 dollurum. Spákaupmennska hefur verið talin eiga stóran þátt í hækkun olíuverðs í sumar en fjárfestar hafa brugðist af krafti við slæmum fréttum en jákvæðar fréttir hafa hins vegar haft mun minni áhrif á verð. Fjárfestar hafa áfram áhyggjur af vexti eftirspurnar, sérstaklega frá Kína, og framboðsskorti vegna ástandsins í Írak, óljósrar framtíðar rússneska félagsins Yukos og vandræða í Venesúela segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar segir ennfremur að aðildarríki OPEC hafa aukið framleiðslu sína og lét yfirmaður samtakanna hafa eftir sér að hans mati væri nóg framboð af olíu á heimsmarkaði. Þau ummæli dróu úr áhyggjum fjárfesta í gær. Fundur er hjá samtökunum 15. september þar sem aðildarríkin munu koma sér saman um framleiðslu á fjórða ársfjórðungi.