Verð á hráolíu lækkaði eftir að Saudi Arabía, stærsti olíuframleiðandi innan OPEC, tilkynnti að OPEC myndi hugsanlega auka framleiðslu sína ef eftirspurn krefðist þess. Næstkomandi miðvikudag verður haldinn fundur í Vínarborg þar sem tekin verður ákvörðun um hvert framleiðslumagn olíu verður næstu sex mánuðina.

Flest aðildarríki OPEC eru að framleiða á fullri afkastagetu og því er óvíst hvort hægt verði að auka framleiðsluna nógu mikið til þess að stemma stigu við olíuverðshækkunum. Framvirkt verð á olíu lækkaði um 0,9% eða niður í $53,05 í gær. Sveiflukennt olíuverð hefur haft mikil áhrif á efnahagslíf margra landa og hafa margar þjóðir lækkað hagvaxtarspár sínar fyrir árið 2005. Ekki er búist við að eftirspurn eftir olíu dragist saman á næstunni þar sem sumartíminn er framundan og ferðalög ná hámarki á þeim tíma.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.