Minnkandi hagvöxtur í Kína, sterkari birgðastaða olíukaupenda ásamt auknu olíuframboði frá Mið-Austurlöndum mun stuðla að lækkun olíuverðs að mati Alþjóða-orkumálastofnunar. Kom þetta fram í skýrslu sem stofnunin gaf út í dag. "Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað nokkuð síðustu daga eftir mikla hækkun frá áramótum. Þetta er meðal annars vegna þess að OPEC ríkin hafa ákveðið að auka framleiðslu sína um hálfa miljón tunnur á dag og einnig voru nýlega birtar upplýsingar um birgðastöðu í Bandaríkjunum sem þóttu jákvæðar," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þetta og fleira mun, að mati Alþjóðaorkumálastofnunarinnar, vega á móti vaxandi eftirspurn sem þykir fyrirséð á seinni hluta ársins. Þrátt fyrir lækkun frá því sögulega hámarki sem olíuverð náði á síðustu vikum er áfram almennt búist við að olíuverð haldist hátt á næstu misserum.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.