Olíuverð sló enn eitt metið á mörkuðum í dag þegar fatið af hráolíu fór í tæplega 128 Bandaríkjadali, eftir að bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs sagði að olíuverð muni að meðtali haldast í 141 dölum á síðustu sex mánuðum þessa árs. Bankinn gerir jafnframt ráð fyrir því að olíuverð muni hækka í 148 dali að meðatali árið 2009.

Fyrri spár sérfræðinga höfðu gert ráð fyrir því að olíuverðið myndi að meðaltali vera í kringum 107 dali á seinni helmingi ársins.

Spár Goldman Sachs hafa í gegnum tíðina haft mikil áhrif á verðmyndun á olíumarkaði, enda er bankinn einn sá umfangsmesti á Wall Street í viðskiptum með olíu. Aðeins eru tvær vikur liðnar frá því að sérfræðingur Goldman, Argun Murti, varaði við því að verðið gæti farið yfir 200 dali á næstu sex til 24 mánuðum.

Marti vakti athygli fyrir spá sína fyrir þremur árum þegar hann spáði því réttilega að olíufatið færi yfir 100 dali. Þá var heimsmarkaðsverðið 55 dalir.

Fram kemur í nýrri greiningu Goldman að aukinn eftirspurn eftir olíu samfara minnkandi framboði sé ein helsta ástæðan fyrir hækkandi olíuverði – fremur en að sökin liggi hjá spákaupmönnum, líkt og sumir sérfæðingar hafa haldið fram.

Spá Goldman byggist á því að eftirspurn eykst mikið vegna hins mikla hagvaxtar í Kína og á Indlandi, en risarnir tveir í Asíu keppa í auknum mæli við Bandaríkin, Evrópusambandið og Japan um olíubirgðir heimsins. Á sama tíma og eftirspurn eykst eiga meiriháttar olíuútflutningsríki í framleiðsluerfiðleikum. Árásir stjórnarandstæðinga í Nígeríu á olíuleiðslur í landinu valda framleiðsluerfiðleikum og að sama skapi er olíuiðnaðurinn í Írak langt frá því að ná fullri framleiðslugetu.

Margir hagfræðingar óttast því að síhækkandi olíuverð muni hafa alvarleg og hamlandi áhrif á hagvöxt í heiminum ásamt því að valda undirliggjandi verðbólgu í alþjóðahagkerfinu.

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, mun í dag biðla til ráðamanna Sádi-Arabíu um að auka olíuframleiðslu í því augnamiði að hægt verði að ná niður verðinu á heimsmarkaði.