Olíuverð lækkaði áfram í gær í New York og kostaði tunnan 41,3 dollara við lokun markaða. Markaðir voru lokaðir í Bretlandi í gær en í morgun lækkaði verðið í London um rúm 3% og fór niður í 39,25 dollara. Olíuverð hefur nú lækkað um 15% síðan 14. ágúst en er engu að síður 32% hærra en það var fyrir ári.

Í Hálffimm fréttum KB bankqa kemur fram að tvær ástæður voru helst nefndar fyrir áframhaldandi lækkunum nú. Vladimir Putin sagði að Rússland mundi auka framleiðslu um tæp 7% á árinu, upp í 9,1 milljón tunna á dag. Einnig er lokið viðgerðum á olíuleiðslum í Írak eftir síðustu skemmdarverk þannig að framleiðslugeta er nú nánast fullnýtt. Jafngildi 1,7 milljóna tunna fljóta í dag um leiðslurnar og um borð í olíuskip við Persaflóa.

Í gær tilkynnti einnig forseti OPEC, Purnomo Yusigiantoro, að samtökin hyggðust auka framleiðsluna um 1 milljón tunna á dag á næstu mánuðum. Samtökin pumpa nú þegar upp um 30 milljónum tunna á dag en framleiðslan hefur ekki verið meiri síðan 1979. Næsti fundur OPEC er áætlaður þann 15. september í Vín.