Olíuverð fór í dag í fyrsta skipti yfir 118 Bandaríkjadali og má helst rekja hækkunina til skemmdarverka uppreisnarmanna á olíuleiðslum í Nígeríu að sögn Reuters fréttastofunnar.

Verð á hráolíu er nú 117,77 dalir á tunnuna á mörkuðum í New York en hafði í morgun farið yfir 118 dali í viðskiptum utan markaða.

Eins og fyrr segir eru það skemmdarverk á olíuleiðslum í Nígeríu sem eru talin megin ástæða fyrir frekari hækkunum. Þá ítrekuðu OPEC ríkin í gær enn einu sinni að ekki stæði til að auka framleiðslu þar sem samtökin segja hátt olíuverð ekki koma til að aukinni eftirspurn.

Í morgun sagði Salem el-Badri, framkvæmdastjóri OPEC þó að ríkin áformi að auka olíuframleiðslu um 5 milljónir tunna á dag fyrir árið 2012. Hann sagði að ef frekari skemmdir verði unnar á olíuleiðslum muni OPEC ríkin bregðast við því fyrr með aukinni framleiðslu fyrr en áætlað var.

Yfirlýsing el-Badri í morgun hefur þó lítil áhrif haft á olíuverð og segir viðmælandi Reuters það stafa af því að OPEC ríkin muni bregðast seint við ef illa fer í Nígeríu.