Olíuverð á heimsmörkuðum hefur hækkað að undanförnu og hefur ekki verið hærra síðan í september 2008. Hækkunina má einna helst rekja til átakanna í Egyptalandi en mikið af olíu er flutt um Suez-skurðinn.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

„Nú í morgun var tunnan af Brent hráolíu á 99,5 Bandaríkjadollurum en í byrjun síðustu viku var hún á 94,1 dollara. Jafngildir þetta hækkun upp á tæp 11%. Þessa hækkun nú má einna helst rekja til átakanna í Egyptalandi sem hafa leitt til þess að óttast er að Súez-skurðurinn komi til með að lokast og þar með lengjast flutningaleiðir olíu. Hins vegar hefur dregið nokkuð úr þessum áhyggjum að nýju í kjölfar yfirlýsingar egypska hersins um að hann muni ekki ráðast gegn almennum borgurum.“