Olíuverð á heimsmarkaði hefur ekki verið lægra í fjögur ár og kostar tunnan nú 87,74 bandaríkjadollara, eða um 10.600 íslenskar krónur. BBC News greinir frá málinu.

Hægur efnahagsbati heimsins hefur haft áhrif á eftirspurn eftir olíu og skilar það sér í lægra verði. Nýleg tíðindi um hægan vöxt í heiminum hafa enn fremur haft mikil áhrif á mörkuðum, einkum í Evrópu þar sem hlutabréfavísitölur lækkuðu umtalsvert í síðustu viku.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lækkaði spá sína um alþjóðlegan hagvöxt úr 3,4% í 3,3% í síðustu viku. Sagði sjóðurinn að hægja myndi á hagvextinum vegna aðstæðna í Japan, Suður-Ameríku og Evrópu.

Hver tunna af olíu kostar um 76-77 bandaríkjadollara í framleiðslu í Rússlandi og Bandaríkjunum og er heimsmarkaðsverðið því komið heldur nálægt framleiðslukostnaði. Haldi verðið áfram að lækka er ljóst að einhver olíufyrirtæki geta lent í vandræðum.