Verð á tunnu af Brent Norðursjávarolíu fór niður í 49 dollara í dag og hefur ekki verið lægra í sex ár. Í júní var verðið á tunnu í kringum 64 dollara og hefur það því lækkað um 34% á tveimur mánuðum. Aukin framleiðsla OPEC ríkjanna og gengisfelling júansins hafa verið nefnd á meðal fjölmargra áhrifaþátta sem spila inn í verðlækkunina.

Í nýjustu mánaðarskýrslu OPEC um þróun á olíumarkaði sem kom út á þriðjudaginn kemur fram að meðalverð á tunnu hafi numið 54,19 dollurum á tunnu sem minnkar um tíu prósentustig frá fyrri mánuði. Framvirkir samningar fyrir Brent norðursjávarolíu féllu um tæpa sjö dollara eða 11% í mánuðinum niður í 56,76 dollara á tunnu. Í skýrslunni er þess vænst að eftirspurn eftir olíu muni vaxa um 1,38 milljónir tunna á dag árið 2015 sem er örlítið meira en spáð var mánuði áður. Á sama tíma er framboði á olíu á heimsvísu spáð vexti sem nemur 960 þúsund tunnum á dag sem er 90 þúsund meira en fyrir mánuði síðan. Á næsta ári spáir OECD að heimsneyslan á olíu muni slá met og nema 94,04 milljónum tunnum á dag og vaxa um 1,34 milljónir tunna á dag. Megnið af þeim vexti kemur frá löndum utan OECD eða um 1,16 milljónir tunna á dag.

Samkvæmt skýrslu Alþjóða orkumálastofnunarinnar (e. International Energy Agency) sem kom út í gær er því spáð að eftirspurn eftir olíu á heimsvísu vaxi um 1,6 milljónir tunna á þessu ári í takt við viðbrögð neytenda við lækkandi olíuverði. Er spáin nokkuð hærri en spá OPEC en IEA spáir því að framboðsaukning á heimsvísu verði 1,1 milljón tunna á dag á þessu ári og falli niður í 900 þúsund tunnur á dag árið 2016. Í skýrslunni segir að jafnvel þótt ákveðið jafnvægi hafi náðst um þessar mundir er ekki líklegt að eftirspurn mæti framboði fyrr en síðla árs 2016.

Nánar er fjallað um áhrif olíuverðlækkana í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .