Heimsmarkaðsverð á brent hráolíu hefur það sem af er degi lækkað um 2,5% og hefur ekki verið lægra síðan í árslok 2018. Verðið á tunnuna stendur nú í 55,2 dollurum og hefur nú lækkað samfleytt í tvær vikur en lækkunin frá 20. Janúar nemur um 15,3%.

Samkvæmt frétt Reutres koma lækkanirnar til af áhyggjum um minni eftirspurn í Kína vegna kórónaveirunnar sem hefur haft lamandi áhrif á efnahagslíf landsins. Þá greindi Bloomberg frá því að útbreiðsla veirunnar hefði leitt til þess að eftirspurn eftir olíu hefði dregist saman um 20% í Kína eða um 3 milljónir tunna á dag en Kína er stærsti innflytjandi á Olíu í heiminum. Samkvæmt Bloomberg er um að ræða stærsta eftirspurnarskell með olíu frá hruni og þann snarpasta frá árásunum á tvíburaturnanna 11. september árið 2001.

Samkvæmt Reuters hafa lækkanir síðustu daga valdið töluverðum áhyggjum innan samtaka olíuframleiðanda, OPEC en samkvæmt heimildarmönnum fréttaveitunnar stefna samtökin að því að draga úr framleiðslu sem nemur um 500.000 tunnum á dag til að bregðast við lækkununum.