Verð á tunnu af Brent hráolíu fór í dag undir 80 Bandaríkjadali í fyrsta sinn síðan í janúar síðastliðnum eftir meira en 3% lækkun. Að óbreyttu verður þetta mesta daglega lækkun á olíuverði frá því í lok september.

Í umfjöllun Financial Times segir að ný gögn, sem birt voru í dag, gefi til kynna að eftirspurn eftir olíu í Bandaríkjunum í ár sé örlítið minni heldur en áður var talið, eða nær 470 þúsund tunnum á dag samanborið við fyrri spár um 490 þúsund tunnur.

Lækkanir á bandaríska hlutabréfamarkaðnum

Þá héldu hlutabréf í Bandaríkjunum áfram að lækka en helstu hlutabréfavísitölur bandaríska markaðarins hafa lækkað um 1,4%-2,2% í dag. Lækkanir á mörkuðum eru raktar til þess að fjárfestar telji líkur á að Seðlabanki Bandaríkjanna haldi uppteknum hætti með hækkun stýrivaxta á næstunni.

Ný skýrsla sem Institute for Supply Management (ISM) birti í gær sýndi að vísitala sem mælir efnahagsumsvif í bandaríska þjónustugeiranum hækkaði þrítugasta mánuðinn í röð í nóvember. Á föstudaginn síðasta birti Vinnumálastofa Bandaríkjanna gögn um fjölgun starfa sem var umfram væntingar fjárfesta.

Gögnin gefa til kynna að stýrivaxtahækkanir séu mögulega ekki enn farnar að bíta nægilega svo að verðbólga hjaðni niður í markmið seðlabankans.

Helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna það sem af er degi:

  • S&P 500: -1,8%
  • Dow Jones Industrial Average: -1,4%
  • Nasdaq Composite: -2,2%