Brent hráolíuverð fór undir 85 Bandaríkjadali á tunnu í morgun, í fyrsta sinn frá því í janúar síðastliðnum.

Erlendir miðlar rekja verðlækkunina m.a. til stýrivaxtahækkana helstu seðlabanka heims í síðustu viku. Auk þess hafi dollarinn styrkst verulega á síðustu misserum.

Aðalhagfræðingur Moody‘s sagði við Forbes að hann eigi von á þrýstingi til hækkunar á olíuverði á næstu mánuðum og nefnir sérstaklega fyrirhugaða viðskiptaþvingana Evrópusambandsins sem ná til rússneskrar olíu.

Sérfræðingar á hrávörumarkaði bíða eftir fundi OPEC+ ríkjanna í byrjun næsta mánaðar. Á síðasta fundi samtakanna samþykktu þau að draga úr framleiðslu.

Í umfjöllun Reuters segir að OPEC+ ríkin séu þegar að framleiða töluvert undir hámarksviðmiðum sambandsins og því gæti farið svo að ákvörðun um frekari niðurskurð hafi lítil áhrif á framboð. Dagleg framleiðsla OPEC+ ríkjanna í ágúst var 3,58 milljónum tunna undir markmiði.