Verð á bandarískri hráolíu féll um allt að 4,6% í viðskiptum gærdagsins, og hafði þá ekki verið lægra síðan í maí. Wall Street Journal nefnir áhyggjur af efnahagsáhrifum hertari sóttvarnarráðstafana vegna útbreiðslu Delta-afbrigðis kórónuvírussins sem líklega ástæðu.

Við lokun markaða í gær hafði verðið lækkað um 2,6% frá opnun og stóð í 66,5 dölum á tunnu, 12% undir nýlegum hápunkti. Markaðurinn er þó enn mun stöðugri en hann var stóran hluta síðasta árs.

Í áðurnefndri umfjöllun WSJ eru áhyggjur af miklu falli í eftirspurn kínverja eftir olíu vegna Delta-afbrigðisins, en yfirvöld í höfuðborginni, Peking, lýstu því yfir í síðustu viku að öllum stórum viðburðum yrði aflýst út ágústmánuð.

Markaðsaðilar eru einnig sagðir hafa áhyggjur af því að endurkomu skrifstofustarfsfólks í staðvinnu verði frestað, með tilheyrandi áhrifum á olíueftirspurn.