*

sunnudagur, 12. júlí 2020
Erlent 19. maí 2018 13:31

Olíuverð gæti farið í 100 dali

Olíuverð gæti hækkað á næstu mánuðum vegna ákvörðunar Bandaríkjaforseta um að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamkomulaginu við Íran.

Snorri Páll Gunnarsson
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lengi gagnrýnt kjarnorkusamkomulagið fyrir að taka ekki nógu fast á kjarnorkuáætlunum Írana.

Mikil óvissa ríkir á heimsmarkaði fyrir olíu í kjölfar ákvörðunar Bandaríkjaforseta um að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamkomulaginu við Íran. Erlendir greiningaraðilar telja þó líklegt að olíuverð hækki á næstu mánuðum. 

Bandaríkjaforseti tilkynnti um ákvörðun sína í síðustu viku. Jafnframt tilkynnti hann að innan 180 daga myndu Bandaríkin taka upp á nýjan leik þær refsiaðgerðir og viðskiptaþvinganir sem fallið var frá með undirritun kjarnorkusamkomulagsins árið 2015, þegar samið var um að Íran setti skorður við kjarnorkuáætlunum sínum. Meðal þeirra eru ströng viðurlög gagnvart ríkjum og fyrirtækjum við því að flytja inn olíu frá Íran, fjárfesta í íranska orkugeiranum og stunda önnur viðskipti við Íran.

Íran er fimmti stærsti olíuframleiðandi heims, með um 5% hlutdeild í heimsframleiðslu. Landið er jafnframt þriðji stærsti framleiðandinn innan Samtaka olíuframleiðsluríkja (OPEC) á eftir Írak og Sádi-Arabíu.

Tilkynning Bandaríkjaforseta hristi upp í mörkuðum, ekki síst á heimsmarkaði fyrir olíu. Olíuverð hækkaði um 3% daginn eftir ákvörðunina og náði þriggja og hálfs árs hámarki. Fjármálagreinendur rekja hækkunina til væntinga um að viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna muni raska olíuflæðið frá Íran og draga úr framboði á heimsmarkaði.

Olíuverð hefur farið hækkandi frá áramótum vegna vaxandi eftirspurnar, framleiðsluskerðingar OPEC-ríkjanna, aukinnar spennu í Mið-Austurlöndum og efnahagslegs óstöðugleika í Venesúela, Írak, Nígeríu og Líbýu. Það sem af er ári hefur West Texas hráolía hækkað um tæp 18% í verði og Brent hráolía hækkað um 17%.

Sádi-Arabía hefur hag af hærra verði

Óljóst er með endanlegar afleiðingar ákvörðunar Bandaríkjaforseta á olíubirgðir í heiminum og heimsmarkaðsverð á olíu. Íran flytur út 2,5 milljónir tunna á dag en á næstu mánuðum gæti stór hluti af því framboði horfið af markaðnum.

Stærstu kaupendur olíu frá Íran eru Kína, Indland, Suður-Kórea og Tyrkland. Eitt stærsta óvissuatriðið snýr að því hvort Suður-Kórea, Japan og Evrópuríki – sem og Indland og Tyrkland – muni draga úr eða stöðva innflutning á olíu frá Íran vegna yfirvofandi refsiaðgerða. Á markaði þar sem eftirspurn er mikil og framboð hefur minnkað verulega gætu hundruð þúsunda tunna frá Íran á dag haft talsverð áhrif á olíuverð. Evrópusambandið, Bretland, Rússland og Kína hyggjast standa við kjarnorkusamkomulagið við Íran.

Athyglin mun þó einkum beinast að því hvort ríki innan og utan OPEC muni framlengja samkomulag sitt um að draga úr framleiðslu á olíu, sem gildir til áramóta, eða fara með fleiri tunnur á markað.

Sádi-Arabía, stærsti olíuframleiðandinn innan OPEC, hefur ríkan hag af því að sjá olíuverð hækka meira, ekki síst vegna Vision 2030 umbótaáætlunarinnar og útboðs Saudi Aramco. Á sama tíma hefur spenna í Mið-Austurlöndum stigmagnast, olíuframleiðsla Venesúela hefur hríðfallið og Bandaríkin hafa stóraukið olíuframleiðslu sína. Það er því í mörg horn að líta á olíumarkaði. 

Hækkar olíuverð um 65%?

Viðbrögð fjármálagreinenda við ákvörðun Trumps eru misjöfn, en flestir telja þeir að olíuútflutningur Írans muni dragast saman um 300 til 500 þúsund tunnur á dag og að olíuverð muni hækka til skamms og meðallangs tíma.

Að mati Goldman Sachs gæti verð á Brent hráolíu hækkað í 82 dollara fyrir sumarið. Bank of America telur að olíuverð hækki í 90 og jafnvel 100 dollara á næsta ári, á meðan DNB útilokar ekki að olíuverð nái 100 dollurum í ár. Royal Bank of Canada telur á hinn bóginn að olíuverð muni haldast í jafnvægi við 70 dali á tunnuna og jafnvel lækka lítillega á næsta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bandaríkin Íran Trump olía olíuverð Bandaríkin