Teikn eru á lofti um að olíuverð gæti hafa náð botni sínum að mati Aljóða orkustofnunarinnar (e. International Energy Agency).

Í skýrslu stofnunarinnar fyrir marsmánuð segir að olíuverð á heimsvísu hafi náð miklum bata á síðustu vikum. Um miðjan janúar var verð á tunnu af Brent Norðursjávarolíu í kringum 28,5 dollara en fæst nú fyrir um 40 dollara. Að mati stofnunarinnar ætti þó ekki að taka þessari verðhækkun sem skýru merki um að hið versta sé að baki.

Í skýrslunni eru talin fram nokkur atriði sem styðja við kenninguna um að olíuverð fari hækkandi. Í fyrsta lagi er möguleiki á að olíuframleiðendur grípi til aðgerða til að draga úr framleiðslu, framboðsskortur er í Írak, Nígeríu og hjá Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, möguleiki er á að framboð frá ríkjum utan OPEC fari minnkandi auk þess sem að veikari dollar gæti hækkað olíuverð enn frekar.

Skýrsluhöfundar merkja skarpan samdrátt í eftirspurn eftir olíu, sérstaklega frá Bandaríkjunum og í Kína, en hún fór niður í 1,2 milljónir tunna á dag á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Eftirspurn upp á 1,2 milljónum tunna á dag er áfram spáð fyrir árið 2016.

Olíuframboð á heimsvísu minnkaði um 180 þúsund tunnur á dag í febrúar niður í 96,5 milljónir tunna á dag.