*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Erlent 24. apríl 2019 14:03

Olíuverð hækkað um 34% á þessu ári

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um nálægt 34% það sem af er ári eftir verulega lækkun undir lok síðasta árs.

Ritstjórn
epa

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um nálægt 34% það sem af er ári eftir verulega lækkun undir lok síðasta árs. Verð á Brent-olíu fór í tæpan 71 Bandaríkjadal á fatið í byrjun apríl en verðið hafði ekki farið yfir 70 dali síðan 12. nóvember síðastliðinn. Frá þeim tímapunkti fór verðið lægst niður í rúma 53 dali í lok árs en hefur hækkað síðan. Verðið var um 61 dalur í byrjun febrúar en upp úr miðjum febrúar fór verðið að hækka nokkuð skarpt og var komið í 67 dali 22. febrúar. Verðið um þessar mundir er þó ekkert sérstaklega hátt í sögulegu samhengi, en meðalverð síðustu 10 ára er 80,4 dalir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

10% hækkun olíuverðs hækkar bensínverð að jafnaði um 3,7%

Auk þess kemur fram í Hagsjánni að mest af útsöluverði bensíns hér á landi séu föst krónutölugjöld og skattar og því hækki innlent bensínverð á fólksbíla hlutfallslega mun minna við gefna hækkun heimsmarkaðsverðs olíu. Áhrif af hækkun heimsmarkaðsverðs olíu hafi sögulega séð komið inn í verð bensíns í sama mánuði en einnig með eins mánaðar töf. Um það bil 1/3 áhrifanna komi fram í sama mánuði en 2/3 hlutar um mánuði seinna. Þetta helgist að mestu leyti af þeirri töf sem verði milli verðbreytingarinnar og þess að olían berist til landsins. Sú sala sem fram fara í dag sé því af bensíni sem flutt var inn fyrir nokkrum vikum síðan.

Tölfræðigreining á sambandi heimsmarkaðsverðs olíu og bensínverðs hér á landi frá árinu 2015 gefi til kynna að 10% hækkun heimsmarkaðsverðs olíu hafi í för með sér 1,4% hækkun bensínverðs í sama mánuði og um 2,3% hækkun í næsta mánuði á eftir. Heildarhækkunin sé því um 3,7%.

Minni olíuinnflutningur vegna gjaldþrots WOW air

Þá er jafnframt farið yfir það að sé litið til innflutningsþróunar á einstökum eldsneytistegundum sé áberandi mikil aukning innflutnings á þotueldsneyti, sem hafi margfaldast síðustu ár.

„Innflutningur á þotueldsneyti hefur nánar tiltekið tæplega 7-faldast frá árinu 2010 en til samanburðar hefur innflutningur á brennsluolíu aukist um 124%, en hann hefur aukist næstmest á eftir þotueldsneyti. Árið 2010 nam innflutningur þotueldsneytis um 10,8 mö.kr., eða um 19,2% af heildarinnflutningi olíu, en margföldun á fjölda erlendra ferðamanna á síðustu árum hefur margfaldað innflutning á þotueldsneyti. Töluvert stóran hluta af innflutningi þotueldsneytis á síðasta ári má rekja til starfsemi WOW air sem nú hefur hætt starfsemi. Að öðru óbreyttu má því gera ráð fyrir talsverðum samdrætti í innflutningi þotueldsneytis á þessu ári. Minni innflutningur á olíu mun því líklega vega upp á móti áhrifum hækkunar eldsneytisverðs á gengi krónunnar og verðbólgu," segir í Hagsjánni.

Stikkorð: Landsbankinn Hagsjá olíuverð
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is