Fréttir af samkomulagi Rússa og Sádí-Araba um að „auka stöðugleika“ á olíumarkaði hafa ýtt heimsmarkaðsverði á olíu upp á við. Þegar þetta er ritað hefur verð á Brent Norðursjávarolíu hækkað um 1,41% og stendur það nú í 47,49 dölum á fatið, en miðað er við olíu til afhendingar í nóvember í ár.

Olíuframleiðsla er enn mun meiri en sem nemur eftirspurn og er olíuverð töluvert undir því sem það var fyrir tveimur árum, þegar fatið af olíu kostaði um 110 dali.

Alexander Novak, orkumálaráðherra Rússlands, sagði að samkomulagið gæti falið í sér temprun á framleiðslu og að Rússar væru reiðubúnir að taka þátt í því að „frysta“ olíuframleiðslu. Khalid al-Falih, orkumálaráðherra Sádí-Arabíu, sagði hins vegar að frysting á framleiðslu væri ekki nauðsynleg sem stendur. Rússland og Sádí-Arabía eru stærstu olíuframleiðendur heims. Orkumálaráðherrar landanna tveggja munu hittast aftur síðar í mánuðinum, sem og í október og nóvember til að stilla saman strengi sína.