*

laugardagur, 6. júní 2020
Erlent 3. apríl 2020 08:49

Olíuverð hækkar eftir tíst Trump

Ef þetta gerist þá verður það FRÁBÆRT fyrir olíu- og gasiðnaðinn sagði Bandaríkjaforseti á Twitter.

Ritstjórn
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mohammed bin Salman, krónprinsinn í Sádi-Arabíu.
EPA

Brent-hráolía hækkaði um 21% í verði í gær og stendur verðið á einni tunnu nú í um 30 dollurum. Ástæðan fyrir hækkuninni er rakin til tísts Donald Trump Bandaríkjaforseta á samskiptamiðlinum Twitter í gærdag.

„Ég var að tala við vin minn MBS (Mohammed bin Salman, krónprinsinn í Sádi-Arabíu), sem sagðist hafa rætt við Pútín, forseta Rússlands. Ég bæði býst við því og vona að að þeir muni draga olíuframleiðslu saman um sem nemur 10 milljón tunnum, kannski meira. Ef þetta gerist þá verður það FRÁBÆRT (e. GREAT) fyrir olíu- og gasiðnaðinn."

Markaðurinn túlkaði þessi skilaboð Bandaríkjaforseta sem svo að Rússar og Sádi-Arabar væru að grafa stríðsöxina en ríkin hafa háð verðstríð á olíumarkaði síðustu vikur. Um tíma í gær hækkaði verð á Brent-hráolíu um 47% en í dagslok nam hækkunin 21% eins og áður sagði. Hækkunin gekk að stórum hluta tilbaka eftir að rússnesk yfirvöld gáfu út yfirlýsingu um að engar viðræður hefðu átt sér stað við Sádi-Araba. Í kjölfarið kom yfirlýsing frá yfirvöldum í Sádi-Arabíu um að konungsríkið væri reiðubúið að minnka framleiðsluna ef önnur G-20 ríki, sem eru samtök 19 stærstu iðnríkja heims auk Evrópusambandsins, væru til í að taka þátt.

S&P 500 hlutabréfavísitalan hækkaði um 2,3% í gær. Hlutabréf í olíufélaginu Exxon Mobile hækkuðu um 7,6% og hlutabréfaverð Chevron hækkaði um tæp 11%.