*

mánudagur, 20. september 2021
Erlent 12. nóvember 2018 08:43

Olíuverð hækkar eftir ummæli al-Falih

Olíuverð hækkaði í morgun eftir að Sádí-Arabía viðraði hugmyndir um að draga úr olíuframleiðslu.

Ritstjórn
Khalid al-Falih, orkumálaráðherra Sádí-Arabíu.
epa

Olíuverð hækkaði um rúm 2% í morgun eftir að orkumálaráðherra Sádí-Arabíu viðraði hugmyndir um að draga úr olíuframleiðslu vegna umframframboðs. Rússland segir ástandið hinsvegar tímabundið og því ekki vera ástæðu til framleiðslusamdráttar. Financial Times segir frá.

Orkumálaráðherra Sádí-Arabíu, Khalid al-Falih, sagði í gær að ríkisolíufyrirtækið Saudi Aramco myndi selja 500 þúsund tunnum minna af olíu í desember en nóvember, sökum lítillar eftirspurnar. Sölusamdrátturinn gæti svo leitt til að dregið yrði úr framleiðslu.

Til hefur staðið að Sádí-Arabía auki olíuframleiðslu sína um allt að milljón tunnur á dag vegna þrýstings frá Donald Trump Bandaríkjaforseta. Hann biðlaði til OPEC, samtaka olíuframleiðenda, um að auka framleiðslu til að koma til móts við samdrátt vegna endurnýjaðra bandarískra viðskiptaþvingana gegn Íran.