Heimsmarkaðsverð á hráolíu er tekið að hækka á ný eftir að hafa sveiflast mikið dagana þar áður. Eins og fram hefur komið lækkaði verð mikið í síðustu viku en hækkaði svo á nýjan leik fyrstu tvö daga þessarar viku. Á miðvikudag lækkaði verð svo töluvert á ný en hækkaði lítillega í gær og hefur það sem af er degi hækkað talsvert.

Þannig hefur verð á olíu af Brentsvæðinu hækkað um 1,2% í dag og kostar tunnan nú 114,37 dali en WTI-olían hefur hækkað um 1,37% og kostar 100,33 dali/tunnu.

Dægurverð á 95 oktana bensíni hefur lækkað nokkuð í gær og í fyrradag samkvæmt upplýsingum á vef Financial Times. Tonnið af bensíni kostaði við lokun markaðar í Rotterdam 1.066 dali og lækkaði um 7 dali á milli daga en frá þriðjudegi hefur verið lækkað um 61 dal/tonn.