Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað verulega í morgun eftir að Sádí-Arabar hófu loftárásir á uppreisnarmenn í Jemen.

Brent Norðursjávarolía hefur hækkað um 5,21% í verði í dag og kostar fatið af olíunni nú 59,42 dali.

Í frétt BBC segir að fjárfestar hafi áhyggjur af því að átökin í Jemen gætu breiðst út fyrir landamæri landsins og haft áhrif á olíuframleiðslu á svæðinu.

Olíuverð hefur lækkað eilítið frá því þegar mest lét eftir að í ljós kom að olíuflutningum stafaði ekki bráð hætta af átökunum. Mikilvægar siglingaleiðir fyrir olíuflutningaskip liggja meðfram ströndum Jemens, en auk þess hafa einhverjir áhyggjur af því að Íranir gætu dregist inn í átökin.