Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði um 2% á markaði í gær og norðursjávarolíu um 3% eftir að herskáir íslamistar náðu tökum á borgunum Mosul og Tikrit í Írak í gær. Olíuverðið stendur nú í 106,7 dölum á tunnu og hefur það ekki verið hærra síðan í september í fyrra.

Bent er á í umfjöllun breska útvarpsins ( BBC ) að Írak sé annað á lista OPEC-ríkjanna yfir olíuframleiðsluríkin. Breyting á olíuframleiðslu þar, hvort heldur er röskun á henni eða aukning, geti því haft talsverð áhrif á þróun olíuverðs.

Þá er jafnframt bent á að málefni Íraks hafi haft neikvæð áhrif á gengisþróun á hlutabréfamarkaði bæði í Bandaríkjunum í gær og í Asíu í nótt. Þá má greina smitáhrifa á mörkuðum í Evrópu. Á meðan helstu hlutabréfavísitölur í Asíu leituðu niður á við í nótt gegnir öðru máli um Nikkei-vísitöluna. Hún hækkaði ein í nótt eða um 0,9%.