Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði um 1% í fyrstu viðskiptum ársins í morgun. Reuters segir helstu ástæður vera vaxandi olíuframleiðslu Bandaríkjanna, og áhyggjur af efnahagslægð á árinu, en umsvif verksmiðja í Kína, stærsta olíukaupanda heimsins, hafa dregist saman nýlega.

Framvirkt verð á tunnu af Brent hráolíu stendur nú í 53,3 Bandaríkjadölum, sem er um 1% lækkun frá lokaverði nýliðins árs. Miðlarar sem Reuters vísar í segja væntingar um aukið framboð samhliða samdrætti í eftirspurn ástæðu lækkunarinnar á framvirkum verðum, sem segja til um væntingar markaðsaðila.

Olíuverð hrundi á síðasta fjórðungi síðasta árs, eftir að hafa hækkað jafnt og þétt allt árið og náð hámarki í tæpum 80 dölum á tunnuna, og stóð yfir fjórðungi lægra en í upphafi árs 2018 nú um áramótin, í 45 dölum, samanborið við 61 um síðustu áramót. Er það í fyrsta sinn síðan 2015 sem olíuverð lækkar milli áramóta.