Heimsmarkaðsverð á olíu hefur haldið áfram að lækka nú í morgun og kostar tunnan af Brent Norðursjávarolíu nú rúma 52 bandaríkjadali. Svo lágt verð hefur ekki sést síðan í maímánuði 2009. BBC News greinir frá.

Verðið fór raunar niður um heil 3% í morgun og fór lægst í 51,2 dali á tímabili áður en það tók aðeins við sér aftur. Þetta kemur í kjölfarið á nær 6% lækkun á verðinu í viðskiptum gærdagsins.

Verð á olíu vestanhafs heldur einnig áfram að lækka og kostar tunnan þar nú um 48,5 dali, og fór í fyrsta sinn niður fyrir 50 dali frá aprílmánuði árið 2009. Fjárfestar óttast hins vegar að botninum sé ekki enn náð þar sem eftirspurn fari minnkandi sem gæti valdið enn frekari verðlækkun.