*

þriðjudagur, 27. október 2020
Innlent 9. mars 2020 09:23

Olíuverð hrundi um meira en 30%

Á sama tíma og eftirspurn minnkar hratt vegna minni ferðalaga eykur Sádi Arabía olíuframleiðslu sína til að refsa Rússum.

Ritstjórn
epa

Brent hráolíuverðið hefur lækkað um 20,12%, eða 9,11 dali fatið, niður í 32,18 dali fatið þegar þetta er skrifað og Vestur Texas hráolíuverðið hefur lækkað um 22,04%, eða niður um 9,09 dali fatið, í 36,18.

Þetta gerist í kjölfar þess að Sádi Arabía hyggst auka framleiðslu sína á olíu á sama tíma og eftirspurn eftir olíu hefur hrunið í kjölfar áhrifa útbreiðslu kórónavírusins Covid 19, áður kenndur við upprunaborgina Wuhan í Kína, á eftirspurn eftir flugi og öðrum ferðalögum.

Fyrst í morgun féll olíuverð um í kringum 30% á heimsmörkuðum, og fóru framvirkir samningar með Brent hráolíufatið lægst niður í 31,02 Bandaríkjadali, sem er það lægsta sem það hefur farið í síðan 12. febrúar 2016. Stefnir í að lækkunin í dag verði sú mesta síðan 17. janúar 1991, þegar Persaflóastríðið, eða fyrra Íraksstríðið, hófst.

Hinn helsti mælikvarðinn á olíuverð, Vestur Texas olíufatið féll mest niður í 27,34 dali fatið, en lækkunin nú gæti orðið sú mesta í sögunni og orðið meiri en 33% lækkunin í janúar 1991.

Samkvæmt heimildum Reuters hyggjast Sádi Arabar auka framleiðslu sína um meira en 10 milljón tunnur á dag í apríl en þá rennur út núverandi samningur OPEC ríkjanna og Rússlands um framleiðslutakmarkanir.

Þannig hyggjast Sádi Arabar reyna að refsa Rússum, sem er næst stærsti framleiðandi olíu í heiminum, fyrir að styðja ekki framleiðslutakmarkanir OPEC ríkjanna. Lækkaði olíufyrirtæki landsins, sem enn er að langstærstum hluta í eigu ríkisins, opinbert söluverð hráolíu sinnar um á milli 6 til 8 dali á fatið.

Áður reynt að ýta út öðrum framleiðendum

Þessi ríki hafa áður reynt að beita miklum verðlækkunum til að ýta dýrri olíuframleiðslu með bergbroti í Bandaríkjunum út af markaðnum, en með tvöföldun framleiðslu sinnar hafa Bandaríkjamenn orðið stærsti olíuframleiðandinn í heiminum.

Þessar deilur eru að hitna á sama tíma og aðgerðir bæði kommúnískra stjórnvalda í Kína og annarra ríkja eins og Ítalíu og Suður Kóreu sem hafa farið illa út úr vírusnum, hefur dregið mikið úr eftirspurn eftir flutningum, sem enn eru að mestu knúnir áfram með olíu.

Þannig hefur Goldman Sachs og aðrir stórir bankar eins og Morgan Stanley lækkað hagvaxtaspár sínar fyrir Kína, í seinna tilvikinu niður í engan hagvöxt á þessu ári. Á sama tíma hefur japanska jenið styrskt gagnvart Bandaríkjadal sem og gullverð hækkað samhliða flótta fjárfesta úr hlutabréfum í öruggari eignir.

Stikkorð: Bandaríkin Kína Rússland Brent hráolía Bandaríkin Kína bergbrot Vestur Texas Opeb Covid 19