Verð á fati af Brent hráolíu féll um 9% í dag í 26 dollara sem er það lægsta í 13 ár. Fatið hefur fallið um 27% í verði í vikunni. Verðfallið frá áramótum nemur 60% en þá stóð fatið í 66 dollurum.

Þá lækkaði WTI hráolían í Bandaríkjunum um 15% í 23 dollara á fatið, sem er það læst í 18 ár. Horfur á mun minni eftirspurn eftir olíu vegna efnahagssamdráttar í kjölfar viðbragða við útbreiðslu kórónuveirunnar eru sagðar skýra verðfallið.

Sjá einnig: Olíuverð innanlands lækkað um 7%

Verðfallið nú kemur í kjölfar harðari samgöngutakmarkana stjórnvalda víða um heim og auk þess að ekkert lát virðist vera á deilu olíuframleiðsluríkjanna Rússlands og Sádí Arabíu samkvæmt frétt Wall Street Journal . Ríkin eru í störukeppni og hafa bæði heitið því að auka olíuframleiðslu þrátt fyrir minnkandi eftirspurn með það að markmiði að fá hitt til að gefast upp og draga úr framleiðslu.

Í efnahagslegu tilliti hefur verðfall olíu jákvæð áhrif fyrir Ísland og gæti haldið aftur af verðbólgu næstu misseri þrátt fyrir veikingu krónunnar.