Verð á olíu hélt í dag áfram að falla líkt og verið hefur síðustu daga. Í Evrópu lækkaði verðið um 75 sent, niður í 97,74 dollara á tunnu. Á tímabili féll verðið enn lægra, niður í 95,34 dollara á tunnu, en lægra hefur það ekki verið það sem af er þessu ári.

Margir telja verðlækkunina fagnaðarefni og á það sannarlega við um þá sem óttast hafa olíuverðshækkanir og hugsanlegar afleiðingar slíkra nú þegar þrengir að í efnahagslífi um heim allan. Það er þó líklega einmitt efnahagssamdrátturinn sem stuðlar að lækkandi olíuverði enda hefur eftirspurn eftir olíu minnkað á síðastliðnum mánuði. Í umfjöllun AP fréttaveitunnar um málið segir að fallandi olíuverð sé jafnt, vísbending um efnahagssamdrátt á heimsvísu og afleiðing af samdrættinum. Þá skipta kosningar síðasta sólarhrings, bæði í Frakklandi og Grikklandi, einnig máli.

Fyrir neytendur er þetta léttir í ljósi hækkunar olíuverðs í byrjun árs sem ekki virtist ætla að dvína. Verðið fór þá hæst í 128 dollara á tunnu.