*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 17. mars 2020 19:01

Olíuverð innanlands lækkað um 7%

Evran hefur styrkst um 12% gagnvart krónunni, og Bandaríkjadalur um 9,5% meðan hráolíuverð hefur helmingast.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Olíuverð hér á landi hefur lækkað skart síðustu daga að því er sjá má á heimasíðu Gasvaktarinnar, samhliða lækkandi olíuverði á heimsmörkuðum þó veiking krónunnar dragi nokkuð úr lækkuninni hér á landi.

Þannig hefur olíuverðið á sölustöðum N1 lækkað um 9 krónur, eða 3,8%, það er frá 233,9 krónum á lítrann 8. mars síðastliðinn niður í 224,9 krónur í dag 17. mars. Ef horft er lengra aftur, í tilviki N1, þá seldi félagið olíulíterinn á 241,8 krónur þann 20. febrúar síðastliðinn, og hefur lækkunin síðan þá því numið 16,9 krónum, eða 7%.

Svipaða sögu má segja um verðið hjá hinum Olís, sem lækkað hefur um 8 krónur frá 8. mars, eða úr 234,8 krónum niður í 226,8 krónur, sem er lækkun um 3,4%.

Lækkunin hjá Orkunni, aðalsölustöðum þriðja stærsta olíufélagsins, Skeljungs, var eilítið minni eða 3,3%, eða um 7,7 krónur, frá 233,2 krónum 8. mars niður í 225,5 krónur í gær, en ekki voru til tölur fyrir daginn í dag hjá félaginu.

Loks má telja lækkun Atlantsolíu, sem nemur 3%, eða 7,1 krónu frá 8. mars þegar verðið var 232,8 krónur í 225,7 krónur í dag.

Eins og sést á tenglinum að ofan eru ekki miklar upplýsingar um verðþróun Costco, þar sem síðasti verðpunktur er 12. mars, en þá var verðið 196,9 krónur, en næsti á undan var 5. febrúar þegar verðið var 197,9 krónur, en þar á undan var næsti 6. janúar í 198,9 krónum.

Hráolíufatið helmingast í verði

Hins vegar hefur heimsmarkaðsverð hráolíufatsins frá þeim tímapunkti til dagsins í dag nálega helmingast. Það er lækkað um, 25,16 Bandaríkjadali, eða 46,7% í tilviki Vestur Texas hráolíunnar, það er úr 53,86 dölum fatið í 28,7 dali fatið og um 49,7% í tilviki Brent hráolíunnar, eða um 29,67 dali, úr 59,72 dölum í 30,05 dali.

Á sama tíma, eða frá 20. febrúar hefur evran hins vegar styrkst um 12% gagnvart íslensku krónunni, og og hefur hún hækkað í virði um 16,63 krónur, eða úr 138,1 krónu í 154,73 krónur nú. Styrking Bandaríkjadals er nokkru minni eða um 9,5%, eða um 12,15 krónur, úr 127,92 krónum í 140,07 krónum.

Stikkorð: Olíuverð Skeljungur N1 Olís evra hráolía Orkan Bandaríkjadalur