Verð á hráolíufatinu fór yfir 80 bandaríkjadali á heimsmörkuðum í morgun, en verðið hefur verið undir 60 dölum fatið þangað til undir lok síðasta árs allt frá því um mitt ár 2015.

Brent hráolía fór um tíma í morgun upp í 80,18 dali fatið, en þegar þetta er skrifað er verðið 79,79 dalir. Vestur Texas hráolían er nú í 72,06 dölum.

Fyrir utan tilraunir OPEC ríkjanna í samstarfi við Rússland um að draga úr framleiðslu til að hækka verðið á ný, er talið að helsta ástæðan fyrir verðhækkuninni sé ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að slíta kjarnorkuvopnasamningnum við Íran.

Það þýðir að viðskiptabann Bandaríkjanna á ríkið verður virkt á ný, en ekki hefur orðið úr þeirri framleiðsluaukningu úr bergbrotsolíulindum Bandaríkjamanna sem sumir greinendur spáðu að myndi draga úr verðhækkunum.

Framleiðslan með bergbrotinu var spáð að yrði allt að 10,7 milljónir fata á dag, en FT segir að hindranir hafi orðið á því markmiði.