Olíuverð hefur lækkað um 2,2% í fyrstu viðskiptum vikunnar en samkvæmt frétt Financial Times kemur lækkunin til af ótta við þau áhrif sem kórónaveiran sem breiðst hefur út í Kína, kunni að hafa á heimshagkerfið. Stjórnvöld í Kína hafa gefið það út að veiran sem á upptök sín í borginni Wuhan muni hafa neikvæð áhrif á kínverska hagkerfið á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Verð á Brent hráolíu stendur nú 58,56 dollurum á tunnuna og hefur nú lækkað í samfellt sjö daga en lækkunin síðastliðna viku nemur 10%. Olíuverð sem hefur ekki verið lægra síðan í byrjun október hefur nú lækkað um 12% frá áramótum.