Olíuverð á Asíumörkuðum féll eftir hækkanir síðustu daga á undan. Er það talið vegna þess að áhyggjur yfir mögulegri útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa minnkað, en Bretar kjósa um aðild á fimmtudaginn komandi.

Tvær skoðanakannanir sem komu fram í gær sýna að fylgismenn áframhaldandi aðildar hafa sótt í sig veðrið eftir að þingmaður sem studdi aðild var myrtur í síðustu viku. Þriðja skoðanakönnunin sýndi þó nauman meirihluta þeirra sem vildu ganga úr sambandinu.

Áhyggjur af olíuframboði

Áhrif kosninganna á olíuverð virðast þó vera að minnka og áhyggjur markaðarins beinast nú í auknum mæli að framboði, en Sádi Arabía minnkaði útflutning sinn í apríl. Eftir hækkun olíuverðs um 30% á árinu virðist sem olíuframleiðsla í Bandaríkjunum sé að sækja á ný í sig veðrið þvert á væntingar Sádi Arabíu og Opec samtakanna.

Virðist sem margir þeirra sem framleiða olíu með bergbroti úr leirsteini séu að opna fyrir borholur á ný sem áður hafði verið lokað og eru væntingar um að ef olíuverð nálgist 60 Bandaríkjadali á tunnuna muni þeir fara að bora fyrir nýjum holum.

Íran eykur útflutningsgetu

Það sem gæti einnig aukið á olíuframboð er að Íran hefur aukið útflutningsgetu sína með því að núna geta þeir fyllt á átta olíuskip í einu í helstu útflutningshöfn sinni.

Einnig gæti haft áhrifa að á mánudag lækkaði nígeríski gjaldmiðillinn naira um 30% gagnvart Bandaríkjadal eftir að hætt var að binda gengi gjaldmiðilsins. Var þetta gert til að draga úr alvarlegum gjaldeyrisskorti sem var að halda aftur af hagvexti í stærsta hagkerfi Afríku sem er jafnframt mikilvirkur olíuútflytjandi.