Olíuverð hafa verið að fara lækkandi í dag og stefnir í að verðið geti haldist lágt. Bæði Nígería og Lýbía sem eru stór framleiðsluríki á olíu en hafa búið við takmarkaða útflutningsgetu undanfarið virðast vera að koma á ný inn á markaði.

Olíuverð nái nýju jafnvægi

Á mörkuðum lækkuðu framvirkir samningar á hráolíu í New York sem afhenda á í ágúst um 2,7%, og fóru niður í 48,95 Bandaríkjadali tunnan. Lækkuðu verð á Brent hráolíu sem afhenda á í september um 2,3%, niður í 47,58 dali tunnan.

Hækkuðu olíuverð í heiminum nokkuð á mánudag þegar orkumálaráðherra Sádi Arabíu, Khalid al-Falih, sagði að olíuverð væri að ná jafnvægi í núverandi stöðu. Orkumálaráðherra Bandaríkjanna, Ernest Moniz, tók í sama streng og sagði að markaðir með olíu yrðu komnir í jafnvægi á næsta ári. Minnkandi framleiðsla á olíu í Bandaríkjunum hefur verið lykilatriði í að hækka verð á olíu úr því lægsta sem það hefur náð í þréttán ár síðastliðinn febrúar.

Nígería og Lýbía skrúfa frá á ný

En nú hafa greinendur áhyggjur af því að vaxandi merki eru um að mikilvirk framleiðsluríki eins og Nígería og Lýbía sem bæði hafa búið við takmarkaða framleiðslugetu vegna innri ólgu séu að koma aftur inná markaði sem muni lækka verðið á ný.

Hafa tvö olíufélög Lýbíu sameinast loksins en aðskilnaður þeirra var ein helsta hindrunin í vegi fyrir sameiningu landsins. Sameiningin gæti þýtt að olíulindir og hafnir gætu opnast á ný. Jafnframt sýna tölur að framleiðsla hafi aukist í Nígeríu þrátt fyrir tíðar árásir vígahópa.