Heimsmarkaðsverð á hráolíu féll í dag í aðdraganda fundar OPEC, samtaka olíuframleiðsluríkja, og hefur ekki verið lægra í fjögur ár, að því er segir í frétt BBC. Fatið af Brent Norðursjávarolíu kostar nú um 75,75 dali og var síðast lægra í september 2010.

Ástæðan er sú að afar ólíklegt þyki að OPEC ríkin ákveði að draga úr olíuframleiðslu, því Kúvæt, Sádí-Arabía, Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa náð innbyrðis samkomulagi um olíuframleiðslu. Frá júní hefur hráolíuverð lækkað um 30%, vegna minnkandi eftirspurnar og framleiðsluaukningar í Bandaríkjunum.

Verðlækkunin er áhyggjuefni fyrir mörg OPEC-ríki, því flest þurfa á því að halda að olíuverð sé yfir 80 dölum á fatið, því ella er halli á ríkissjóðum þeirra. Mörg þurfa á enn hærra olíuverði að halda, en t.a.m. geta Alsír og Íran ekki að óbreyttu viðhaldið hallalausum ríkisrekstri nema að olíuverð sé yfir 131 bandaríkjadal.