*

sunnudagur, 19. september 2021
Erlent 26. maí 2017 11:50

Olíuverð lækkar í kjölfar samkomulags

OPEC ríkin, Rússland og fleiri framlengdu samkomulag um framleiðslutakmarkanir á olíu skemur en búist var við.

Ritstjórn
epa

Samtök olíuframleiðsluríkja, OPEC, auk hóps 11 ríkja utan samtakanna, með Rússland í broddi fylkingar hafa náð samkomulagi um að framlengja samkomulag um takmarkanir á olíuframleiðslu í níu mánuði til viðbótar.

Samkomulagið sem fyrst náðist til hálfs árs í desember byggði á því að minnka framleiðsluna um 1,8 milljón olíuföt á dag, eða sem samsvarar um 2% af heildarframleiðslunni, hefur ýtt olíuverði upp fyrir 50 Bandaríkjadali á fatið. Þetta er fyrsta samkomulagið sem OPEC ríkin hafa náð um framleiðslutakmarkanir í heilan áratug og það fyrsta við ríki utan samtakanna í 15 ár.

Framleiðsla í Norður Ameríku heldur aftur af verðhækkunum

Olíuframleiðsluríkin hvorki vilja né geta þó ýtt verðinu of hátt upp, þrátt fyrir að mörg þeirra glími við fjárhagsvandræði vegna lágs olíuverðs og hve háð þau eru olíuframleiðslunni. Er það vegna þess að víða verður olíuframleiðsla utan samkomulagsríkjanna hagkvæm þegar verðið hækkar of geyst.

Má þar nefna olíuvinnslu úr tjörusöndunum í Kanada og með bergbrotstækni í Bandaríkjunum, sem hættu mikið til framleiðslu þegar verðið fór niður fyrir 50 dali á fatið en hafa auðveldlega hafið starfsemi á ný með hækkandi verði, og þannig haldið því meira niður en samkomulagsríkin væntu.

Í kjölfar tilkynningar um framlengingu samkomulagsins lækkaði olíuverð um 4%, þvert á það sem hefði mátt ætla, en það má rekja til þess að búist hafði verið við því að samkomulagið myndi ná til eins árs.

Þrýstingur vegna kosninga og hlutafjárútboðs

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa ríki OPEC fjölgað nú um eitt, með inngöngu Miðbaugs Gíneu í samtökin, en OPEC ríkin framleiða um þriðjung af allri olíuframleiðslu í heiminum.

„Komandi kosningar í Rússlandi og hlutafjárútboð Aramco, ríkisolíufélags Saudi Arabíu, verður á næsta ári, sem þýðir að ríkin munu gera hvað þau geta til að halda uppi olíuverði,“ er haft eftir Gary Ross í frétt Reuters, en hann er greinandi á olíumarkaði hjá PIRA Energy.