Olíuverð á heimsmarkaði lækkaði annan daginn í röð, en olíuborpöllum í Bandaríkjunum fjölgaði í fyrsta skipti frá áramótum og leiddi það til verðlækkunarinnar, sem og lækkunar á gengi hlutabréfa í orku- og námafyrirtækjum. Einnig féll gengi gjaldmiðla í olíuframleiðsluríkjum.

West Texas Intermediate olía hefur fallið um 1,12% það sem af er degi og er fatið nú á 39 dali, samkvæmt upplýsingum Bloomberg. Brent Norðursjávarolía hefur fallið um 0,19% og stendur fatið nú í 41,12 dölum.

Í vikunni fjölgaði olíuporböllum í Bandaríkjunum í fyrsta skipti í tólf vikur, en framleiðendur þar gera nú ráð fyrir að botninum sé náð í olíuverði og að það geti farið að hækka á ný.