Olíuverð lækkaði á ný á asíumörkuðum í morgun, eftir hækkun síðustu átta daga, sem kom til af því markaðsaðilar töldu Bandaríkin ekki geta haldið áfram að auka framleiðsluna jafnmikið og áður. Lækkuðu framvirkir samningar á Brent hráolíu um 13 sent, eða 0,3% niður í 49,55 olíufatið klukkan 7:05 í morgun, Greenwich mean Time.

Einnig lækkaðu framvirkir samningar á bandarísku West Texas hráolíuna um 9 sent, eða 0,2% niður í 46,98 dali olíufatið. Bæði viðmiðunarverðin höfðu hækkað um 12% frá því að þau voru síðast í lágpunkti þann 21. júní síðastliðinn.

Framleiðslugeta Bandaríkjanna ekki nægileg

Hafði markaðurinn verið mjög bjartsýnn á getu framleiðenda í Bandaríkjunum við að auka framleiðslu í maí og fyrri hluta júnímánaðar, á sama tíma og efasemdir voru uppi um að OPEC ríking gætu haldið nægilega aftur af framleiðslu til að skapa skort á markaðnum.

En seinnipartinn í júní sýndu tölur að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum hafði minnkað eilítið sem og færri nýjar borholur væru í undirbúningi. Viðmælendur Reuters frá BMI Research búast við því að olíuverð hækki á næstunni, og segir greiningarfyrirtækið að meðalverð olíu verð 54 Bandaríkjadalir á fatið á seinni hluta þessa árs og 55 dalir á næsta ári.

OPEC ríkin og önnur olíuframleiðsluríki stefna að því að minnka framboð olíu um 1,2 milljón olíuföt á dag á milli janúar á þessu ári og fram til mars 2018. Ef satt reynist að Bandarísk framleiðsla nái ekki að fylla það gat eins og nýjustu framleiðslutölur sína gætu OPEC ríkjunum tekist að hækka olíuverðið á ný.