Olíuverð lækkaði áfram á heimsmörkuðum í dag en líklegt er að afnám efnahagsþvinganna á Íran hafi áhrif til lækkunar.

Verð á Brent hráolíu til afhendingar í febrúar lækkaði um 30 sent í kauphöllinni í London og er nú 28,64 Bandaríkjadalir. Verð á Texas hráolíu til afhendingar í febrúar lækkaði einnig um 41 sent og er nú 29,01 dalur.

Endurkoma Íran á útflutningsmarkaði fyrir olíu mun líklega hafa áfram áhrif á olíumarkaði, en sérfræðingar telja að heimsmarkaðsverð á olíu gæti farið niður fyrir 25 dali á tunnu á næstu vikum . Olíuríki eru þegar að framleiða umfram eftirspurn og innkoma Íran á þá markaði mun líklega auka enn frekar við framboð á olíu.