Olíuverð á heimsmarkaði hefur lækkað talsvert í dag. Helstu framleiðendur heims hafa aukið við framleiðslu sína þrátt fyrir fyrirhugaðar áætlanir OPEC ríkjanna og Rússa um að minnka við olíuframleiðslu. Uppi eru raddir um það að offramleiðsla á olíu sem hefur bjagað markaðinn síðastliðin tvö ár geti haldið áfram til ársins 2017. Reuters fréttaveitan greinir frá.

Alþjóðlega hráolíuvísitalan LCOc1 lækkaði um 11 prósent frá lokun markaða á mánudaginn. Olíufatið er því metið á 54,83 dollara. Bandaríska West Texas vísitalan hefur jafnframt lækkað um 29 prósent og er fatið þar metið á 51,5 dollara.

Markaðs- og greiningaraðilar telja að þær miklu hækkanir sem urðu í kjölfar samkomulags OPEC ríkjanna hafi að einhverju leyti gengið til baka - og hafi því gert lítið úr samkomulagi OPEC ríkjanna.

Allt stefnir í að nóvember verði annars metmánuðurinn í olíuframleiðslu OPEC ríkja, en búist er við því að 34,19 milljónir fata verði framleidd á dag, samanborið við 33,82 milljónir á dag í októbermánuði, samkvæmt könnun Reuters.

Rússar framleiddu þar af 11,21 milljón fata. Hefur ríkið ekki framleitt meira af olíu síðastliðin 30 ár. Það þýðir að OPEC og Rússar geti mætt nálega helming af eftirspurn heimsins eftir olíu sem er rétt rúmlega 95 milljónir fata á dag.